Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands:
Kári Stefánsson, læknir bendir réttilega á í grein í Fréttablaðinu 27. júní sl. að læknasamtökin eru öflugur bakhjarl félagsmanna sinna[i]. Það sem honum hinsvegar yfirsést í ágætri grein og ábendingum til læknasamtakanna er að hagsmunir lækna og skjólstæðinga þeirra hafa yfirleitt og almennt farið saman og gera enn. Þannig hafa læknar verið aðaldriffjöðrin í uppbyggingu heilbrigðiskerfis. Þeir eru hryggjarstykkið í starfseminni og hjartað sem pumpar lífsglóðinni sem heldur því gangandi. Því er hinsvegar ekki að leyna að áhrif lækna á ákvarðanatöku innan heilbrigðiskerfisins og stofnanna þess hefur farið minnkandi á sl. árum. Þess sjást merki allvíða í kerfinu og bitnar á sjúklingum, þegar nálgun og sjónarmiðum lækna í skipulagningu og stjórnun hefur verið ýtt til hliðar. Of lengi var ekki hlustað á ítrekaðar ábendingar lækna um hættu sem stafaði af því að draga saman fjárveitingar til innviða kerfisins. Var svo komið á tímabili að innan OECD landanna lenti Íslands í næst neðsta sæti og hefur lengi varið lægra hlutfalli af þjóðarframleiðslunni til reksturs en frændþjóðir okkar. En árinni kennir illur ræðari og nú virðist ætlunin að gera lækna að blórabögglum vegna þess sem misfarist hefur í áranna rás. Markmiðið slíks málflutnings virðist vera að rýra með öllum tiltækum meðölum það trausta samband sem myndast hefur á milli lækna og sjúklinga í gegnum tíðina og gera þá og starfsemi þeirra tortryggilega með tilvísunum í fjárhagslega hagsmuni fremur en trausta faglega þjónustu og órökstuddar ásakanir um meint misferli fremur en faglegan metnað sem einkennir læknastéttina og störf þeirra.
Rekstur heilbrigðiskerfisins
Læknafélögin hafa lengi bent á þá kórvillu sem liggur í fjármögnun rekstrar í heilbrigðiskerfinu að sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eru á föstum fjárlögum og geta illa brugðist við breytileika í magni og tegund viðfangsefna á hverjum tíma. Engum er vísað frá en biðlistar þeirra sem ekki eru bráðveikir lengjast. Á hinn boginn hefur verið samið við sjálftætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisfyrirtæki á grunni ákveðinnar þjónustu og greiðslu fyrir unnin verk, þar sem nýting hverra krónur er skilgreind í samningum og gjaldskrám sem ríkið gefur út. Svo virðist vera að stjórnvöld kjósi að þegja þunnu hljóði um að rammasamningur um greiðsluhlutdeild ríksins og ákvörðun um kaup á læknisverkum er einhliða gefin út af Sjúkratryggingum Íslands í umboði heilbrigðis- og fjármálaráðherra. Í staðinn er því ranglega haldið fram að læknar hafi haft fríspil til úttektar úr ríkiskassanum óhindrað á meðan dregið er úr fjárveitingum til ríkisrekinna sjúkrahúsa og heilsugæslu. Ekkert er fjarri sanni og það eru slík ósannindi í málflutningi ráðamanna á æðstu stöðum sem læknum svíður og margir orðnir fjúkandi vondir svo veður á súðum[ii]. Lái þeim hver sem vill. Betur færi etv. á því að þeir kæmu mótmælum sínum á framfæri með tónlist eins og Dimitri Shostakovich gerði gegn alræðræðisvaldinu á sínum tíma. Bent hefur verið á mikilvægi þess að sjúkratryggingarétturinn verði skilgreindur út frá þörfum notendanna og fjármagn fylgi þeim þangað sem þjónustan er veitt en sé ekki bundin í klafa fastra fjárveitinga með tilheyrandi biðlistamyndun. Vonandi hyllir undir að DRG-kerfið sem byggir á síðarnefnda greiðslumódelinu tekið upp á sjúkrahúsum landsins, enn ómældu skattfé og tíma hefur verið varið í þróun og aðlögun þess.
Öflugt fagfélag og miðlun til almennings
En Læknafélag Íslands er ekki bara öflugt séttarfélag heldur líka fagfélag sem m.a. hefur gefið út Læknablaðið í 105 ár. Þar birtast í hverjum mánuði fræðigreinar lækna. LÍ hefur lagt metnað sinn í að gefa blaðið út á íslensku en með enskri samantekt hverrar fræðigreinar. Allt fræðiefni er skráð í helstu alþjóðlega gagnagrunna vísindarita. Efni þess vekur að jafnaði athygli og í hverjum mánuði gera fjölmiðlar efni blaðsins ítarleg skil. LÍ heldur í upphafi hvers árs Læknadaga, vikulanga símenntunar og starfsþróunar ráðstefnu fyrir lækna þar sem annað heilbrigðisstarfsfólk er einnig velkomið. Auk þess sem almenningi er boðin þátttaka eitt kvöld. Ætíð hefur verið fullt út úr dyrum á þeim viðburðum þar sem líflegt samtal lækna og almennings hefur náð að njóta sín. Má þar nefna umræður um geðheilbrigði og samfélag, bólusetningar barna, heilbrigði unglinga, um heilsuvá af varanlegri streitu svo lítið eitt sé nefnt. Í tilefni 100 ára afmælis LÍ 2018 var boðið til dagskrár um ævi og tónlist Sigvalda Kaldalóns læknis. Í sínum ranni hafa læknar haldið tónlistar- og ljóða kvöld þar sem leikin eru frumsamin lög lækna og læknar lesa eigin ljóð. Læknar grípa til margra og fjölbreyttra ráða til að takast við álag í starfi en nýleg skoðanakönnun félagsins sýnir svo ekki verður um villst að álag og streita er nú alltof algengur fylgifiskur læknisstarfsins.
Samfélagsleg ábyrgð og forysta
Samfélagsleg áhrif lækna eru meiri en hægt er að rekja í einu greinarkorni en rétt er að minna á að það voru samtök lækna sem létu engan bilbug á sér finna í kjaraviðræðum 2014 og leiddu þá baráttu með vel skipulögðum aðgerðum þrátt fyrir hrakspár um efnahagslegan óstöðugleika og óðaverðbólga og kollsteypu efnahagsins sem af kröfum þeirra og annarra launþega hlytist. Niðurstaðan varð að í kjölfarið fylgdu önnur stéttafélög og gerðardómar tóku mið af samningum LÍ sem leiddi til mesta kaupmáttarvaxtar á lýðveldistímanum. Læknar eru nú með lausa samninga við ríkið og áríðandi að þar náist lending fljótt án þess að til átaka komi eins og 2014-15.
Ábendingar LÍ má finna í mörgum málaflokkum öðrum en gagnrýni á heilbrigðisáætlunina til 2030[iii] sem gert er að umtalsefni í ofangreindri ágætri blaðagrein Kára. Má þar t.d. nefna að LÍ hefur stutt að Ísland undirriti samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og rekja má þá stefnu félagsins allt aftur til þess að Samtök lækna gegn kjarnorkuvá voru stofnuð 1983, en því miður er ríkisstjórnin á öndverðum meiði við LÍ[iv]. Þá hefur LÍ látið að sér kveða varðandi málefni lækna á alþjóðavettvangi og sem dæmi má nefna að félagið hefur ritað forseta Tyrklands og mótmælti aðgerðum þarlendra stjórnvalda gagnvart læknum, sem fyrir þá eina sök að benda á í ályktun sinni að hernaðaraðgerðir væru heilbrigðisógn og stríð gæti verið skaðlegt heilsu þeirra sem tækju þátt í eða yrðu fyrir. Yfirlýsingin leiddi til þess að starfsemi tyrkneska læknafélagsins var bönnuð þar í landi og læknar og forystusveit var hneppt í fangelsi. Enn er verið að rétta yfir læknum í Tyrklandi og hneppa í fangelsi fyrir þessar sakir einar. LÍ óskaði eftir fundi með utanríkisráðherra, en þar virðist ekki vera áhugi á að styðja við félagið í gagnrýni þess á mannréttindabrota hinna erlendu stjórnvalda.
Hér heima hafa læknar verið óþreytandi í að benda á hættu sem börnum og ungu fólki getur stafað af því að ánetjast fíkniefnið nikótín og reyndi hvað það gat til að telja heilbrigðisráðherra og Alþingi hughvarf um að leyfa sölu á rafsígarettum í sérverslunum. Því miður sváfu heilbrigðisyfirvöld á verðinum og á allt of löngu tímabili voru engar hömlur á sölu til barna og ungmenna, með þeim afleiðingum að nikótínfíklum í hópi grunnskólabarna stórfjölgaði[v]. Hér er lítið eitt tiltekið af þeim samfélagsmálefnum sem LÍ hefur látið sig varða að undanförnu og því miður í of mörgum tilvikum ekki hlotið hljómgrunn á ríkisstjórnarheimilinu. Læknar og samtök þeirra munu áfram benda á það sem betur má fara í íslensku þjóðfélagi með fagmennsku að leiðarljósi og hagsmuni sjúklinga í forgrunni.
[i] Kári Stefánsson. Kórverk. Fréttablaðið 27. júní 2019 https://www.frettabladid.is/skodun/korverk/
[ii] Það er heilaþvottur í gangi” Viðtal við Ágúst Kárason og Ragnar Jónsson. Morgunblaðið 15. júní 2019. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1725177/?item_num=1&searchid=b4668a910abb13d9c24f7d9f083529e9654c27bd
[iii] Drög að heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Greinargerð og athugasemdir Læknafélags Íslands. https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-4537.pdf
[iv] Umsögn LÍ um tillögu til þingsályktunar um Samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum 57. Mál, þingmannatillaga. https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-4625.pdf
[v] Einn af fimm tíundubekkingum á Íslandi veipar – Læknar vilja stöðva sölu án tafar. DV 12. nóvember 2018. https://www.dv.is/frettir/2018/11/12/einn-af-fimm-tiundubekkingum-islandi-veipar-laeknar-vilja-stodva-solu-tafar/
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga