Aðgerðum stjórnvalda í Tyrklandi mótmælt

Tyrkneska læknafélagið sendi frá sér fréttatilkynningu 24. janúar sl. þar sem félagið lýsti þeirri skoðun að stríð væri lýðheilsuvandamál sem ógnaði umhverfi og samfélaginu öllu.

Í kjölfarið voru 11 stjórnarmenn í tyrkneska læknafélaginu handteknir og settir í varðhald. Saksóknari í Tyrklandi mun vera að rannsaka mál stjórnarmannanna en engar vísbendingar eru um til hvaða aðgerða verður gripið gagnvart þeim. Skrifstofur tyrkneska læknafélagsins sættu húsleit og haldlagðar voru tölvur félagsins sem m.a. höfðu að geyma kvartanir og trúnaðargögn um lækna og sjúklinga.

Aðgerðum tyrkneskra stjórnvalda gegn stjórnarmönnum í Læknafélagi Tyrklands hefur verið harðlega mótmælt víða um heim. Alþjóðasamtök lækna hafa sent mótmælabréf til forseta Tyrklands og krafist þess að stjórnarmenn tyrkneska læknafélagsins verði leystir úr haldi. Þá er því mótmælt að stjórnarmenn skuli vera handteknir fyrir það eitt að lýsa skoðunum varðandi stríð og ógnum sem af því stafa.

Fjölmörg læknafélög hafa sent sambærileg bréf þar sem þessi mótmæli eru áréttuð. Læknafélag Íslands er meðal þeirra læknafélaga sem sent hafa bréf til forseta Tyrklands og fylgir bréf félagsins þessari fréttatilkynningu. Afrit bréfs Læknafélags Íslands var sent utanríkisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni og sendiherra Tyrklands á Íslandi í Osló. 


Bréf LÍ til forseta Tyrklands

Frétt á heimasíðu World Medical Association