Læknar blésu lífi í læknaráð Landspítala á fundi ráðsins í gærmorgun en fundurinn var sá fyrsti frá því að ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt í sumar. Í nýsamþykktum lögum höfðu ákvæði um lækna- og hjúkrunarráð verið felld út. Þess í stað er nú kveðið á um sameiginlegt fagráð allra heilbrigðisstétta á heilbrigðisstofnunum.
Fundurinn sem haldinn var í gegnum fjarfundarbúnaðinn Teams samþykkti að bráðabirgðastjórn, sem skipuð hafði verið af fráfarandi stjórn læknaráðs til að skilgreina framtíðarhlutverk læknaráðs, myndi starfa þar til ný stjórn verður skipuð. Bráðbirgðastjórnin muni móta nýjar starfsreglur læknaráðs, undirbúa kosningu nýrrar stjórnar læknaráðs og boða aðalfund.
Bráðabirgðastjórnina skipa: Berglind Bergmann Sverrisdóttir, sérnámslæknir í lyflækningum. Guðrún Dóra Bjarnadóttir, sérfræðilæknir í geðþjónustu. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, sérfræðilæknir á meðferðasviði. Rafn Hilmarsson, sérfræðilæknir í þvagfæraskurðlækningum og Þorbjörn Jónsson, sérfræðilæknir hjá Blóðbankanum.
Þorbjörn þakkaði á fundinum fyrir traustið sem hópnum væri sýnt. Þau ætli að vanda til verka. „Mín skoðun hefur alltaf verið sú að læknaráð hafi mikilvægu hlutverki að gegna,“ sagði Þorbjörn á fundinum. Starfið hafi oft á tíðum verið þróttmikið.
„Okkar rödd hefur heyrst í gegnum tíðina og full ástæða til að læknaráð haldi í einhverri mynd áfram starfi sínu þó að löggjafinn hafi viljað leysa þennan selskap upp. Það er nokkuð ljóst að nýtt fagráð sem er skipað einum fulltrúa úr mörgum stéttum og skipað af forstjóra verður líklega aldrei með sjálfstæða rödd heldur ein samhljóma rödd inn í stjórnkerfi spítalans.“ Eftir eigi að ræða hversu víðtækt hlutverk læknaráðs verði í framtíðinni.
Anna Margrét Halldórsdóttir, fráfarandi formaður læknaráðs, sagðist full tilhlökkunar til framtíðarstarfsins. „Ég er þess fullviss að það er læknum spítalans í hag að læknaráð starfi áfram,“ sagði hún. „Ég vil nota tækifærið og þakka læknum Landspítala fyrir samstarfið undanfarin ár. Ég vil þakka Ebbu Margréti Magnúsdóttur sérstaklega fyrir frábært samstarf og góða samveru,“ en Anna tók við keflinu af Ebbu í desembermánuði í fyrra. „Ég er mjög spennt að sjá hvernig málin þróast og hlakka til að sjá læknaráð halda áfram að blómstra fyrir lækna spítalans.“
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins, tjáði sig á fundinum og sagði ófært að spítalinn tapaði rödd læknaráðs.
Í stjórn læknaráðs 2019-2020 sátu Ebba Margrét Magnúsdóttir formaður, Anna Margrét Halldórsdóttir varaformaður, Rannveig Pálsdóttir, Matthildur Sigurðardóttir, Guðni Arnar Guðnason, Emil Jón Ragnarsson, Rafn Hilmarsson, Theódór Skúli Sigurðsson, Guðrún María Svavarsdóttir og Guðrún Ása Björnsdóttir. Varamenn voru: Halldór Kolbeinsson, Sveinn Kjartansson, Ragnar Pálsson, Guðrún Svanborg Hauksdóttir, Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, Sigurbjörg Skarphéðinsdóttir, Þórhildur Kristinsdóttir og Berglind Bergmann Sverrisdóttir.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga