Allnokkur fjöldi lækna hefur hætt við að fara erlendis í vetrarfrí með fjölskyldu sinni vegna COVID-19 faraldursins eftir að biðlað var til heilbrigðisstarfsmanna um að fresta öllum utanlandsferðum eftir því sem kostur væri. Nú hafa Læknafélagi Íslands (LÍ) borist fyrirspurnir frá nokkrum læknum vegna þess kostnaðar sem þeir hafa þegar lagt út fyrir vegna fyrirhugaðs vetrarfrís, þ.e. þess kostnaðar, sem þeir fá ekki endurgreiddan við afpöntun. Mismunandi er hvaða reglur gilda um afpöntun.
LÍ telur útilokað að þessi kostnaður eigi að lenda á læknunum sjálfum, þ.e. að því leyti sem útlagður kostnaður fæst ekki endurgreiddur t.d. af ferðatryggingum. LÍ hefur því beint því til stýrihóps um samfélagsleg og hagræn viðbrögð við COVID-19, með bréfi til formanns hópsins Bryndísar Hlöðversdóttur ráðuneytisstjóra að þetta mál verði skoðað og tryggt með hverjum þeim hætti sem unnt er að sá kostnaður sem læknar sitja uppi með, af þessari ástæðu, muni verða greiddur af hinu opinbera gegn framvísun staðfestingar á þeim kostnaði sem læknar fá ekki endurgreiddan.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga