Læknaráð Landspítala lýsir yfir þungum áhyggjum

Læknaráðs Landspítala lýsir þungum áhyggjum af því að vinnsla leghálssýna í krabbameinsleit hafi verið flutt úr landi, þvert á ráðleggingar sérfræðinga. Ráðið sendi frá sér ályktun í dag.

Í ályktuninni segir: „Vinnsla leghálssýna á Íslandi er mikilvægt öryggisatriði í að veita krabbameinsgreindum bestu mögulegu þjónustu. Þegar vinnsla leghálssýna flyst úr landi verður rof á samráði þeirra sem sinna krabbameinsmeðferð og gæti það ógnað þeim góða árangri sem náðst hefur í krabbameinslækningum.“

Einnig segir að við flutning sýnanna úr landi minnki möguleikar til vísindarannsókna, menntun lækna skerðist, mikilvæg sérþekking flytjist úr landi og störf hverfi. „Þetta getur valdið ófyrirsjáanlegu tjóni sem erfitt verður að bæta.“

Á mynd/Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknaráðs Landspítala.

 

 

Svona hljóðar ályktunin í heild sinni:

 

Ályktun stjórnar Læknaráðs Landspítala um vinnslu leghálssýna Stjórn

Læknaráðs Landspítala lýsir þungum áhyggjum af því að vinnsla leghálssýna í krabbameinsleit hafi verið flutt úr landi, þvert á ráðleggingar sérfræðinga. Læknaráð lýsir yfir áhyggjum af því að öryggi í krabbameinsgreiningu muni skerðast.

Vinnsla leghálssýna í krabbameinsleit er mikilvægur þjónustuþáttur sem snertir heilbrigði íslenskra kvenna. Þessi þjónusta hefur verið byggð upp og sinnt hér á landi með góðum árangri. Meirihluti fagráðs um leghálsskimanir komst að þeirri niðurstöðu að starfseminni yrði best borgið hérlendis áfram. Fagfélög þeirra sérfræðinga sem sinna krabbameinsgreiningu og meðferð komust að sömu niðurstöðu. Stjórn Læknaráðs Landspítala tekur undir álit þessara sérfræðinga og meirihluta fagráðs um leghálsskimanir.

Vinnsla leghálssýna á Íslandi er mikilvægt öryggisatriði í að veita krabbameinsgreindum bestu mögulegu þjónustu. Þegar vinnsla leghálssýna flyst úr landi verður rof á samráði þeirra sem sinna krabbameinsmeðferð og gæti það ógnað þeim góða árangri sem náðst hefur í krabbameinslækningum. Sú töf sem verður óhjákvæmilega á vinnslu sýna mun valda konum sem bíða eftir niðurstöðum úr krabbameinsleit vanlíðan. Við slíkan flutning minnka möguleikar til vísindarannsókna, menntun lækna skerðist, mikilvæg sérþekking flyst úr landi og störf hverfa. Þetta getur valdið ófyrirsjáanlegu tjóni sem erfitt verður að bæta.