Málefni Landspítalans, sérstaklega bráðamóttökunnar, hafa verið í brennidepli umræðunnar undanfarnar vikur. Starfsfólk Landspítalans, bæði læknar og hjúkrunarfræðingar, hefur komið fram í fjölmiðlum og rætt þá erfiðu stöðu sem uppi er. Það sem helst brennur á læknum Landspítalans er að sífellt oftar kemur upp sú staða að þeir eiga erfitt með að veita sjúklingum sínum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og sem læknum ber að veita samkvæmt læknaeiðnum. Vegna álags getur verið mikill þrýstingur á starfsfólk að vinna hratt og útskrifa sjúklinga sem fyrst en það samrýmist ekki alltaf bestu hagsmunum og öryggi sjúklinga. Til að veita góða heilbrigðisþjónustu þarf tíma, nægt starfslið og aðstöðu – og þar með nægt fjármagn.
Það liggur fyrir að vandamál Landspítalans í dag er hægt að rekja mörg ár aftur í tímann. Skortur á uppbyggingu og viðhaldi húsnæðis og bið eftir „nýjum“ Landspítala er sorgarsaga. Sömuleiðis hefur fjármögnun Landspítalans lengi verið ófullnægjandi. Kröfur voru um niðurskurð, jafnvel á árunum fyrir hrun, og stórfelldur niðurskurður eftir hrunið skapaði erfiðleika sem enn er ekki búið að vinna úr. Framlög ríkisins til Landspítalans á hvern íbúa náðu hámarki árið 2005, um 170 þúsund kr./íbúa á verðlagi ársins 2018, en hröpuðu niður í 119 þúsund kr./íbúa árið 2010. Síðustu ár hafa fjárframlög farið hækkandi og voru 166 þúsund kr./íbúa árið 2017. Auknar fjárveitingar til spítalans duga þó ekki til að bæta upp áralangt svelti og mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu, meðal annars vegna öldrunar þjóðarinnar og stóraukins ferðamannastraums. Því til viðbótar má nefna að þjónusta frá ýmsum öðrum stofnunum, einkum á SV-horni landsins, hefur verið færð til Landspítalans án þess að fullnægjandi fjárveitingar hafi ávallt fylgt slíkum breytingum.
Sjá grein Önnu Margrétar Halldórsdóttur í Fréttablaðinu
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga