Hinn 19. september sl. féll úrskurður hjá kærunefnd jafnréttismála í máli þar sem Landspítalinn (kærði) hafði auglýst lausa stöðu sérfræðings í tilgreindri sérgrein. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að ráða karl í starfið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem ráðinn var. Kærði rökstuddi ráðningu karlsins með því að karlinn hefði verið hæfari en kærandi og vísaði þar einkum til frammistöðu í starfsviðtali. Kærunefnd taldi að stöðunefnd kærða er veitti álit um hæfni umsækjenda hefði ekki fylgt reglum er um nefndina gilda. Kærunefnd taldi einnig að kærandi hefði staðið þeim er ráðinn var framar varðandi alla þá hlutlægu þætti er áskildir voru í auglýsingu, auk þess sem sá er ráðinn var hefði við lok umsóknarfrests ekki uppfyllt kröfu auglýsingar og reglnanna um sérfræðiréttindi. Þá taldi kærunefnd að í ljósi þess hve takmarkaðra gagna nyti við um viðtöl þau sem kærði byggði ráðningu á hefði kærði ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir ákvörðun um ráðninguna. Þótti kærði þannig ekki hafa sýnt fram á að aðrir þættir en kynferði hafi ráðið þeirri ákvörðun og því brotið gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í stöðuna.
Lesa má úrskurðinn í heild sinni hér
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga