LÍ hvetur heilbrigðisráðherra til að tryggja að samið sé við stofulækna

Læknafélag Íslands leggst eindregið gegn því að heilbrigðisráðherra staðfesti drög um (5.) breytingu á reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Heilbrigðisráðherra er um leið  hvött til að gefa SÍ fyrirmæli um það að ganga sem fyrst til samninga við sérgreinalækna um þá þjónustu sem þeir veita sjúkratryggðum.

 

Í umsögn félagsins segir m.a.:

Í samráðsgáttinni eru nú eins og fyrr er rakið drög að (5.) breytingu á reglugerð nr.

1255/2018. Óbreytt eru fyrirmælin um það að sérgreinalæknar eiga að innheimta fyrir

sjúklinga hjá SÍ þó fyrirkomulagið sé andstætt lögum. Til viðbótar ætlar ráðherra að setja

þrjú ný skilyrði fyrir því að SÍ greiði vegna þjónustu sjúkratryggðra hjá sérgreinalæknum:

 

a. Sjúkratryggðir munu ekki njóta lögvarins réttar til þjónustu sérgreinalækna ef

sérgreinalæknarnir innheimta eða taka önnur gjöld af sjúkratryggðum en kveðið er á um

í gjaldskrá SÍ. SÍ hafa ekki hækkað gjaldskrá vegna þjónustu sérgreinalækna frá 1.

janúar 2020. Launavísitalan hækkaði um liðlega 10% frá 1. janúar 2020 til 1. janúar

2021. Þessar hækkanir launa starfsmanna sinna hafa sérgreinalæknar ekki fengið bætta

í gjaldskránni. Þess vegna hafa þeir séð sig knúna til að bæta hóflegu komugjaldi á

komur sjúkratryggðra. Hvergi er í lögum bannað að sérgreinalæknar setji sér sína eigin

gjaldskrá í samningsleysi. Gjaldskrá SÍ snýr fyrst og fremst að endurgreiðslunni til

sjúkratryggðra. Hún hvorki á né má stýra því hvað sérgreinalæknar innheimta fyrir

þjónustu sína þegar SÍ hafa ekki samið við þá um þjónustu þeirra við sjúkratryggða.

 

b. Sjúkratryggðir munu ekki njóta lögvarins réttar til þjónustu sérgreinalækna nema

sérgreinalæknar skili upplýsingum í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga skv.

2. mgr. 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Engin lagastoð er fyrir því að tengja

sjúkratryggingarétt sjúklinga við þessi upplýsingaskil og gera sjúkratryggða þannig

ábyrga fyrir einhverju sem þeim er útilokað að hafa áhrif á. Um árabil hefur verið

ágreiningur milli lækna og embættis landlæknis um skil þessara upplýsinga, sem sendar

eru á persónugreinanlegu formi án samþykkis sjúklings. Persónuvernd sendi frá sér álit

á síðasta ári um það að stofnunin teldi umfang þeirra upplýsinga sem embætti

landlæknis krefst af sérgreinalæknum of mikið og mögulega stæðist slíkt umfang

upplýsinga án samþykkis sjúklinga ekki nýja persónuverndarlöggjöf

Evrópusambandsins.

 

c. Sjúkratryggðir munu ekki njóta lögvarins réttar til þjónustu sérgreinalækna nema

sérgreinalæknar skili SÍ fyrir lok maí ár hvert endurskoðuðum ársreikningi ársins á

undan. Engin lagastoð er fyrir þessum reikningsskilum til SÍ og því síður að láta

sjúkratryggða þola afleiðingar þess að ólögmætum kröfum sé ekki sinnt.

 

LÍ telur ekki lagastoð fyrir þessum nýju skilyrðum sem heilbrigðissráðherra hyggst leggja

á sérgreinalækna. En samt á að láta sjúkratryggða þola missi sjúkratrygginga, hlýði

sérgreinalæknar ekki ólögmætum fyrirmælum ráðherra. Loks verður ekki betur séð en að

öll þessi nýju skilyrði brjóti í bága við rétt sjúklinga til að velja sér heilbrigðisstarfsmann.

Sá réttur er tryggður í 20. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.

 

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn félagsins í heild sinni sem birt hefur verið í Samráðsgátt stjórnarráðsins og má einnig nálgast þar