Læknafélag Íslands vekur athygli velferðarnefndar Alþingis á alvarlegum mönnunarvanda og álagi á lækna á Landspítala. LÍ hefur leitað til landlæknis um hver ábyrgð lækna er ef sú staða kemur upp að mönnun sé ófullnægjandi. Félagið spyr hver ábyrgð lækna sé við við slíkar aðstæður.
Reynir Arngrímsson, formaður félagsins, segir hljóðið afar þungt í læknum, ekki aðeins á bráðamóttöku Landspítalans, heldur einnig í heilsugæslunni eins og ályktun FÍH beri með sér. Þá séu ófrágengnir samningar við sérgreinalækna.
„Erfitt er að fara inn í sumarið undir þessum kringumstæðum. Mikilvægt er að fram komi skýrar áætlanir frá heilbrigðisyfirvöldum um hvernig leysa eigi yfirvofandi álagskrísu í sumar,“ segir Reynir.
Morgunblaðið sagði frá því í gær að Vilhjálmur Ari Arason, 65 ára læknir á bráðamóttöku Landspítalans, hafi sagt upp eftir 40 ára starf.
„Við erum að sigla inn í sumarið í verri stöðu en nokkur sinni fyrr,“ segir Vilhjálmur segir við Morgunblaðið. Neyðarástand ríki á deildinni. Fjöldi lækna segi upp og álag auki líkur á mistökum. Hann kveðji þó í mikilli sátt og samlyndi.
„Síðastliðin ár hefur verið jöfn og þétt aukning á komu sjúklinga og á sama tíma hafa stöður sérfræðilæknar verið undirmannaðar. Það eru læknarnir sem bera ábyrgð á þessari daglegu vinnu og ég sé það bara á eigin skinni. Áður var maður með unglækna sem unnu grunnvinnuna á meðan sérfræðilæknar voru frekar ráðgefandi og að kenna. Í dag er svo komið að sérfræðingar þurfa að vinna grunnvinnuna að miklu leyti sjálfir,“ segir Vilhjálmur.
Stjórn Læknaráðs lýsti í ályktun frá 18. maí yfir áhyggjum af mönnun sérfræðilækna á bráðamóttöku spítalans í sumar. Stjórn ráðsins hefur skorað á yfirstjórn spítalans að bregðast skjótt við og tryggja bæði öryggi sjúklinga og forða læknum frá því að lenda í alvarlegum atvikum í starfi vegna manneklu og skorts á yfirsýn.
Hjalti Már Björnsson yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, sagði í fréttum RÚV þann 26. maí að spítalinn ætti í vandræðum með að ná að halda lágmarksmönnun sérfræðilækna á bráðamóttökunni í sumar. Álagið hafi verið mikið og læknar kosið að hætta: „Og læknar eru hreinlega að gefast upp á því að starfa við heilbrigðiskerfi sem að er ekki nægilega vel mannað af læknum og legudeildarplássum til að sinna sjúklingum.“
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga