Nýr kjarasamningur lækna og ríkisins undirritaður

Nýr kjarasamningur LÍ og fjármála- og efnahagsráðherra var undirritaður skömmu eftir miðnætti í nótt (28. nóvember) eftir 16 klukkustunda lokasamningatörn sem aðallega tók langan tíma vegna flókinna frágangsatriða. Samningaviðræður hófust hjá ríkissáttasemjara í byrjun apríl, hafa staðið meira og minna síðan og daglega verið langir fundir frá 7. nóvember sl.

Eins og áður hefur komið fram verður kjarasamningurinn kynntur á fundi sem haldinn verður nk mánudag, 2. desember. Streymt verður frá fundinum.
Félagsmenn, sem hvorki geta komið á fundinn né fylgst með streyminu eru beðnir um að senda póst á lis@lis.is svo unnt verði að meta þörf á því að halda annan kynningarfund seinna þessa viku og þá mögulega á Teams.

Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst eftir miðja næstu viku og mun standa í nokkra daga. Niðurstaða atkvæðagreiðslu þarf að liggja fyrir eigi síðar en um hádegi 16. desember.