Reynir Arngrímsson er sjálfkjörinn formaður Læknafélags Íslands (LÍ) til næstu tveggja ára frá aðalfundi LÍ 2021 sem haldinn verður í lok október nk. Engin fleiri framboð höfðu borist að afloknum framboðsfresti 16. mars 2021.
Reynir Arngrímsson, erfðalæknir á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, hefur gengt formennsku í LÍ frá 2017 er hann var kjörinn til forystu í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu allra félagsmanna. Áður gengdi Reynir formennsku í Læknaráði Landspítala frá 2015 og þar áður varaformennsku í Læknafélagi Reykjavíkur og sat í deildarráði læknadeildar um árabil. Reynir gegnir nú jafnframt formennsku í útgáfustjórn Læknablaðsins og stjórn Fræðslustofnunar lækna.
Læknafélag Íslands var stofnað 1918 og er heildarsamtök allra lækna á Íslandi. Fjögur félög eiga aðild að LÍ, Félag almennra lækna, Félag íslenskra heimilislækna, Félag sjúkrahúslækna og Læknafélag Reykjavíkur. Félagsmenn eru í dag 1541. Auk þess starfar innan LÍ öldungadeild lækna, félagsskapur lækna sem hafa látið af störfum. LÍ annast kjarasamningagerð fyrir lækna sem starfa hjá hinum opinbera og kemur fram fyrir þeirra hönd í kjara- og réttindamálum. Félagið rekur virka ráðgjafa- og lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn. Á vegum félagsins er starfræktur Fjölskyldu- og styrktarsjóður lækna, Orlofssjóður lækna, Siðfræðiráð sem er bakhjarl félagsins í siðfræðilegum málefnum og Siðanefnd LÍ en til hennar má vísa kvörtunum og ágreiningsmálum sem beinast að læknum. Að jafnaði starfa 100-120 læknar í vinnuhópum og nefndum á vegum félagsins á hverjum tíma eða eru tilnefndir að óskum stjórnvalda til ýmissa verkefna.
LÍ tekur þátt í alþjóðasamstarfi læknafélaga. Þess má geta að Reynir Arngrímsson var fyrr á þessu ári kjörinn í miðstjórn Alþjóðafélags lækna (World Medical Association-WMA) og mun hann samhliða því taka sæti í tveimur fastanefndum samtakanna, fastanefnd WMA um lækningar og samfélög og siðfræðinefnd WMA. LÍ vinnur náið með læknafélögunum á hinum Norðurlöndunum á alþjóðavettvangi og mynda formenn félaganna sameiginlega Norræna læknaráðið. Undir þeim hatti er samstarf læknablaða á Norðurlöndum, samninganefnda félaganna og siðfræðiráða. Auk þessa á LÍ fulltrúa í CPME, fastanefnd evrópskra læknafélaga á Evrópska efnahagssvæðinu sem starfar og gætir hagsmuna lækna innan Evrópubandalagsins í Brussel og UEMS – samtökum sérfræðilæknafélaga í Evrópu.
Læknablaðið er fræði- og félagsrit lækna sem hefur verið gefið út í 106 ár og kemur út 11 sinnum á ári. Fræðslustofnun lækna fagnar nú aldarfjórðungs afmæli, en megin hlutverk hennar er að stuðla að símenntun lækna. Fræðslustofnun heldur í janúar ár hvert læknadaga, sem eru vikulöng fræðsludagskrá. Þátttakendur á læknadögum eru að jafnaði um 800 – 900. Í ár voru læknadagar í fyrsta sinn eingöngu haldnir á rafrænu formi. Um 100 klst. af fyrirlestrum og fræðsluefni var flutt af læknum og öðrum fræðimönnum í beinni útsendingu frá Hörpu en einnig tekið upp. Efnið er því enn aðgengilegt á netinu skráðum þátttakendum .
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga