Sameiginleg yfirlýsing vegna COVID-19

Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélags Íslands, Sjúkraliðafélags Íslands,  heilbrigðisráðherra, landlæknis, ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlæknis. 

Í ljósi hratt vaxandi útbreiðslu COVID-19 faraldursins á heimsvísu og alvarlegrar stöðu sem getur komið upp hér á landi miðað við reynslu annarra landa liggur fyrir að álag á íslenskt heilbrigðiskerfi gæti vaxið mikið frá því sem nú þegar er orðið. Bæði mun þurfa að sinna sjúklingum með COVID-19 sem er krefjandi, samhliða því að sinna annarri bráða- og heilbrigðisþjónustu. Fyrir liggur að heilbrigðis-starfsfólk hefur veikst og er í sóttkví. Allt þetta getur haft mikil áhrif á þjónustugetu heilbrigðiskerfisins.

Íslenskt heilbrigðiskerfi er fámennt og því enn viðkvæmara en ella fyrir því álagi sem alvarlegum heimsfaraldri getur fylgt. Viðvarandi skortur á heilbrigðisstarfsfólki, sérstaklega hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum en einnig læknum og öðrum þeim sem þjónusta heilbrigðiskerfið gerir stöðuna flóknari. Fjölgi smituðum áfram í þeim mæli sem þegar hefur orðið, kallar það á frekari undirbúning og viðbragðsáætlun.

Það sem að líkindum mun þurfa að gera er að:

  • Færa heilbrigðisstarfsfólk til innan kerfisins.
    • Þar á meðal með því að koma á fót hreyfiteymum sem geta farið þangað þar sem álagið er mest á hverjum tíma s.s. dvalar- og hjúkrunarheimili og heimaþjónustu og annars staðar í heilbrigðiskerfinu. 
    • Fjölga vinnufæru heilbrigðisstarfsfólki innan opinbera kerfisins s.s. með því að:
      • Leita til heilbrigðisstarfsfólks sem vinnur á einkareknum heilbrigðisstofnunum.
      • Leita til heilbrigðisstarfsfólks sem vinnur við annað en heilbrigðisþjónustu.
      • Leita til heilbrigðisstarfsfólks sem komið er á eftirlaun til að sinna margvíslegri nauðsynlegri þjónustu.
      • Kanna mögulegt samstarf við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk sem og vinnuveitendur þeirra sem er reiðubúið að taka að þátt í þessu verkefni. 

Af þessu tilefni hafa þau félög sem standa að þessari yfirlýsingu, í samstarfi við Almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld ákveðið að biðla til núverandi og fyrrverandi félagsmanna um að að skrá sig í sérstaka bakvarðahópa þessara heilbrigðisstétta með upplýsingum um menntun/sérmenntun og hvaða verkefnum viðkomandi er tilbúinn að sinna, s.s.  álagstengdri heilbrigðisþjónustu og bráðaþjónustu annarri en þeirri sem tengist  COVID-19 sjúklingum.

Heilbrigðisráðuneytið er að skoða réttarstöðu þeirra sem gefa sig fram til þessara starfa. Að ýmsu þarf að gæta í þessu sambandi áður en til vinnunar kemur, þ.á m. launagreiðslum og tryggingum.

Nánar verður sagt frá þessum atriðum þegar þau hafa skýrst. Fyrsta skrefið er að koma upp bakvarðasveitum hjúkrunarfræðinga, lækna og sjúkraliða. 

Sjá má yfirlýsinguna á vef Heilbrigðisráðuneytinu.

https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=aad73f99-6391-11ea-945f-005056bc4d74

Skráningarsíða heilbrigðisráðuneytisins.

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/03/11/Bakvardasveit-heilbrigdisthjonustunnar-oskad-eftir-heilbrigdisstarfsfolki-a-utkallslista/