Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna sem áformaður var með kaupum nýstofnaðs félags Myndgreiningar ehf. á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf.
Starfsemi samrunaaðila felst í að veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu, en undir hana falla m.a. tölvusneiðmyndarannsóknir, röntgenrannsóknir, ómun, segulómun og skyggnirannsóknir, er skýrt á vef Samkeppniseftirlitisins.
„Í hjálagðri ákvörðun nr. 35/2020 er fjallað um samrunann og komist að þeirri niðurstöðu að með honum hefði keppinautum á markaði fyrir myndgreiningu utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu fækkað úr þremur í tvo með alvarlegum skaðlegum áhrifum fyrir bæði greiðendur og notendur þjónustunnar,“ segir í reifun á ákvörðuninni.
„Í kjölfar samrunans hefði samanlögð hlutdeild samrunaaðila á markaðnum orðið mjög há eða á bilinu [80-100]%, eftir því um hvaða tegund myndgreiningarþjónustu er að ræða. Þá var það jafnframt mat Samkeppniseftirlitsins að önnur atriði, s.s. kaupendastyrkur Sjúkratrygginga Íslands eða möguleg hagræðing vegna samrunans, kæmu ekki í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans. Endurspeglast það jafnframt í því að Sjúkratryggingar hafa í sjónarmiðum sínum við rannsókn samrunans lagst eindregið gegn honum.“
Morgunblaðið fjallar í leiðara í dag um þessa ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Þar er bent á að Landspítalinn sé helsti keppinauturinn á þessum markaði. Auk þess sem Sjúkratryggingar sé að stórum hluta kaupandinn.
„Þessi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nær eðli máls samkvæmt aðeins til mjög afmarkaðs hluta heilbrigðisþjónustunnar og ræður ekki úrslitum um hagkvæmni heilbrigðiskerfisins í heild sinni þó að hún sé augljóslega þungbær eigendum fyrirtækjanna tveggja. En ákvörðunin mætti gjarnan verða til að vekja umræður um heilbrigðiskerfið í heild sinni og hvert það stefnir,“ stendur þar.
„Samkeppniseftirlitið hafnar umræddum samruna með þeim rökum að hann skaði samkeppni á starfssviði fyrirtækjanna, en vandi heilbrigðiskerfisins er að hluta til sá að þar er lítilli samkeppni leyft að þrífast. Þessi skortur á samkeppni stafar ekki af því að einkafyrirtæki sameinist, heldur af því að ríkið er afar umsvifamikið og að enginn vilji virðist vera til þess, nema síður sé, að veita einkaaðilum svigrúm til að bjóða þjónustu sína og stunda þá erfiðu samkeppni sem þeir þó hafa hug á gagnvart risavöxnu ríkisreknu heilbrigðiskerfinu. Nær væri að ríkisvaldið ýtti undir samkeppni með því að opna fyrir möguleika einkaaðila til að veita heilbrigðisþjónustu en að það grípi inn í starfsemi þeirra sem þó hefur tekist að reka einkafyrirtæki á þessu sviði.“
Mynd/Læknablaðið/myndskreyting/01. tbl. 95. árg 2009
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga