„Ég hvet alla sem starfa innan heilbrigðis- og félagsmálakerfisins til að taka höndum saman til að okkar allra veikasta fólk fái þjónustu við hæfi hvað sem líður getu til að sinna sjálfu sér, halda uppi sjálfsaga og reglusemi,“ segir Salóme Arnardóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna. Hvatninguna ritar hún í kjölfar Læknadaga en föstudaginn 22. janúar var málþing um meðferð geðsjúkdóma utan geðdeilda. Þar var Salóme fundarstjóri.
Þar töluðu Hjalti Már Björnsson bráðalæknir og yfirlæknir og kennslustjóri á bráðamóttöku, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri málaflokks heimlislausra, Margrét Ólafía Tómasdóttir, heimilislæknir í Efstaleiti og lektor við læknadeild Háskóla Íslands, og Ingólfur Sveinn Ingólfsson, geðlæknir í geðheilsuteymi Landspítala.
„Allir kölluðu eftir auknu samstarfi, þekkingu á störfum hinna mismunandi stofnana og stefnumótun í málaflokknum. Allir lögðu áherslu á að hinir veikustu fengju aðstoð við að nýta sér þá þjónustu sem í boði er, því slík aðstoð hefur sýnt fram á betri þjónustu, bætta meðferð og líðan,“ segir Salóme og heldur áfram.
„Enginn þeirra sem þarna töluðu, nema geðheilsuteymin, hafa möguleika á að setja aðkomuhindranir í formi þroskahömlunar, fíknisjúkdóma eða annara sjúkdómsgreininga, eins og tíðkast víða í geðheilbrigðiskerfinu.“ Henni hafi því verið hugsað til orða yfirmanns WHO um siðferðisbrest.
„Ef sú áhersla sem er í núverandi skipulagi og áhuga bæði ráðamanna og meðferðaraðila, á læknanlegar sjúkdómsmyndir, eins og vægt þunglyndi og kvíða, kemur í veg fyrir að hægt sé að aðstoða þá allra veikustu, þá er það siðferðisbrestur sem á ekki að líðast í heilbrigðiskerfinu,“ segir Salóme.
Læknadagar voru haldnir á netinu alla síðustu viku frá 18. - 22. janúar.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga