„Staðan er grafalvarleg. Það er okkur læknum búið að vera ljóst um alllangt skeið,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins. Hann segir þá ákvörðun Sjúkratrygginga að neita að greiða fyrir aðgerð skjólstæðings á Klíníkinni nú í kórónuveirufaraldrinum glögglega sýna þá togstreitu sem ríkt hafi innan heilbrigðiskerfisins. Hún bitni á þjónustu við sjúklinga sem ætti að vera sjálfsögð.
Geint var frá í frétt RÚV í fyrrakvöld að aðgerðin hefði verið niðurgreidd hefði skjólstæðingurinn farið til Svíþjóðar. Það hafi hann ekki getað vegna faraldursins sem nú geysar.
„Það er áhyggjuefni að Landspítalinn hafi ekki fjármagn og starfsfólk til að sinna biðlistum,“ segir Reynir. Tímabært sé að skoða beina samninga um aðgerðir hjá sjálfstætt starfandi læknum á skurðstofu þeirra í stað þess að senda sjúklinga erlendis í aðgerðir. Reynir bendir á að mikilvægt sé að horfa á þarfir sjúklinga og nýta það tækifæri að lækka viðbótarkostnaðinn fyrir ríkissjóð sem verði við að senda fólk út í aðgerðir.
„Grunnurinn að lausn þessa vanda hlýtur að vera samstillt átak allra aðila sem geta veitt þessa þjónustu óháð rekstrarformi með þarfir sjúklinga og öryggi þeirra í forgrunni. Það er orðið tímabært að landið verði aftur sjálfbært um heilbrigðisþjónustu,“ segir Reynir.
RÚV sagði frá því í fréttum í fyrrakvöld að kona sem hefði farið í aðgerð á Klíníkinni í stað þeirrar sem frestaðist í Svíþjóð vegna COVID-19 þyrfti að greiða aðgerðina úr eigin vasa. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, segir í kvöldfréttum RÚV í gær að ekki séu fjárheimilidir til að semja við Klíníkina um að gera aðgerðir.
RÚV fjallaði um þessa frétt. Sjá hér.
Sjá frétt RÚV um Sjúkratryggingar hér.
Sjá frétt RÚV um skjólstæðinginn hér.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga