Læknafélag Íslands (LÍ) hefur sent heilbrigðisráðherra bréf þar sem lýst er áhyggjum yfir því að embætti landlæknis skuli vera búið að flytja persónugreinanleg gagnasöfn sín til einkaaðila og að Persónuvernd skuli hafa þurft að gera alvarlegar athugasemdir við það með hvaða hætti embættið stóð að flutningnum.
Aðdragandi máls þessa er ákvörðun stjórnar Persónuverndar nr. 2017/1195 þar sem stofnunin gerir alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið var að málum af hálfu embættis landlæknis og telur flutning persónuupplýsinga ekki hafa samrýmst 7. og 11. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hægt er að skoða ákvörðunina hér: https://www.personuvernd.is/efst-a-baugi/urskurdir-og-alit/2018/akvordun-um-flutning-gagnasafna-embaettis-landlaeknis-til-advania-mal-nr-2017-1195
LÍ hefur lengi haft áhyggjur af því hversu umfangsmiklum heilsufarsupplýsingum embætti landlæknis safnar um sjúklinga og telur umfangið vera miklu meira en þörf er á og nauðsynlegt er, ekki síst í því ljósi að upplýsingaöflunin er án samþykkis sjúklinganna sjálfra. Söfnunin fer fram með þeim hætti að embætti landlæknis kallar eftir heilsufarsupplýsingunum frá sjálfstætt starfandi læknum. Læknar, sem ekki hafa orðið við kröfum embættisins hafa setið undir ámæli og hótunum um að þeir verði jafnvel sviptir heimild til að reka eigin starfsstofur.
Í bréfi LÍ til ráðherra er bent á svar Persónuverndar dags. 26. október 2016 vegna erindis LÍ um þetta efni. Niðurstaða Persónuverndar er m.a. sú að árétta að í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar gæti verið þörf á að fara yfir löggjöf um persónugreinanlegar heilbrigðisskrár embættis landlæknis í ljósi þeirra sjónarmiða sem rakin eru í fyrrnefndu bréfi og meta hvort breytinga sé þörf. Meðal þess sem skoða mætti væri hvort ástæða væri til að lögfesta sérstakan andmælarétt í tengslum við þær skrár.
LÍ hefur engar fréttir haft af því að ráðuneytið hafi talið bréf Persónuverndarinnar gefa tilefni til slíkrar endurskoðunar. Lagaákvæði eru a.m.k. óbreytt sem og framkvæmd embættis landlæknis á söfnun persónugreinanlegra heilsufarsupplýsinga frá læknum, án samþykkis sjúklinga.
LÍ óskar í bréfinu eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða málið frekar.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga