Spálíkan til 2040 bendir til vaxandi læknaskorts. Áhrif á sjálfbærni heilbrigðiskerfisins og skert aðgengi að þjónustu er svipmynd sem blasir við
Í nýlegri könnun læknaráðs Landspítala og Læknafélags Íslands (LÍ) meðal lækna sjúkrahússins kom fram að innan við þriðjungur taldi mönnun vera fullnægjandi og tryggja öryggi sjúklinga öllum stundum á sinni starfseiningu. Þótt áríðandi sé að bregðast við slíku nú þegar verður einnig að hyggja að því hvernig tryggja má að heilbrigðiskerfið verði sjálfbært um læknisþjónustu þegar til lengri tíma er litið.
LÍ hefur unnið að gerð spálíkans fyrir mannaflaþróun lækna á Íslandi til ársins 2040. Miðað við forsendur í dag er útlit fyrir að gjá myndist milli eftirspurnar og framboðs á læknum á komandi árum. Þannig eru vísbendingar um að það muni vanta 128 lækna árið 2030, 213 árið 2035 og 251 lækni árið 2040 ef ekkert verður að gert. Þessi svipmynd kemur ekki á óvart þó í dag sé fjöldi lækna á hverja 100.000 íbúa nálægt meðallagi hjá Evrópuþjóðum samkvæmt tölfræði Eurostat frá árinu 2018. Það er vel þekkt staðreynd að aðeins hluti landsmanna hefur sinn heimilislækni og aðgengi að sérgreinaþjónustu hefur verið að skerðast og biðlistar að lengjast, bæði hjá opinberum heilbrigðisstofnunum og sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum. Ástandið skv. spálíkaninu mun aðeins halda áfram að versna.
Við gerð mannaflaspárinnar er horft til ýmissa þátta, t.d. breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Spáin gerir ráð fyrir því að 65 ára og eldri vegi þyngra í eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu en þeir sem eru yngri. Mannfjöldaspá Hagstofunnar er lögð til grundvallar fyrir hlutfall 65 ára og eldri af heildarmannfjölda á komandi árum. Þá er tekið mið af áætluðum breytingum í læknahópnum. Þar skiptir meginmáli nýliðun í hópnum og aldursdreifing. Fjöldi íslenskra lækna sem lýkur námi frá Háskóla Íslands og frá erlendum háskólum. Hlutfall þeirra sem stunda framhaldsnám hérlendis og þeirra sem kjósa að fara utan til framhaldsnáms. Hlutfall þeirra sem setjast að erlendis. Þá er horft til núverandi aldurssamsetningar læknahópsins og hlutfalls þeirra sem fara á eftirlaun á næstu árum. Bæði þeirra sem starfa á Íslandi og hópsins erlendis sem nú dvelur þar í námi og við störf. Hægt er að skoða mismunandi svipmyndir í mannaflaþróun með aðstoð líkansins.
Sérnám á Íslandi
Þegar horft er til framtíðar er lykilatriði að íslenskt heilbrigðiskerfi sé sjálfbært um mannauð á hverjum tíma. Á nýafstöðnum aðalfundi LÍ var samþykkt áskorun til heilbrigðisyfirvalda um að tryggja og skilgreina framlag til kennslu- og vísindaþáttar heilbrigðiskerfisins í fjárlögum með skýrum hætti. Þar skiptir uppbygging framhaldsnáms í sérgreinum læknisfræðinnar miklu máli.
Sérnám í læknisfræði á Íslandi hefur þróast hratt á undanförnum árum. Nú er sérnám veitt í mörgum grunngreinum lækninga á Íslandi í samræmi við alþjóðleg gæðaviðmið. Læknum í sérnámi á Íslandi hefur fjölgað hratt á undanförnum árum, eða um að minnsta kosti 40% frá árinu 2015, og enn meira ef aðeins er horft til viðurkennds sérnáms. Þetta er afar jákvæð þróun, sem tryggir vaxandi hæfni og sjálfbærni í mönnun til framtíðar. Í síðasta kjarasamningi lækna var m.a. tekið tillit til þessarar þróunar og launhækkanir þessa hóps voru umfram aðra læknahópa til að styðja við þessa þróun og uppbyggingu. Kostnaður sem tengist sérnámi lækna felst að langmestu leyti í launakostnaði. Til þessa hefur ekki verið um sérstakar fjárveitingar að ræða heldur hefur sérnám verið misvel skilgreindur hluti daglegs rekstrar hlutaðeigandi stofnana. Úr því þarf að bæta.
Nauðsynlegt er að skilgreina fjármagn til sérnáms lækna, ekki síst svo hægt sé að stýra því hvernig fjárveitingar eru nýttar í samræmi við þarfagreiningar, mannaflalíkön og gæðaeftirlit, en einnig til að tryggja að tímabundnar sveiflur í rekstri íslenskra heilbrigðisstofnana hafi ekki ófyrirsjáanleg áhrif á mönnun heilbrigðiskerfisins á næstu áratugum.
Alþjóðlegur samanburður
Líkan LÍ og mannaflaspá bendir til að miðað við hækkandi hlutfall einstaklinga í aldurshópum sem þurfa meira aðgengi að heilbrigðisþjónustu gæti skapast alvarlegur skortur á læknum á komandi árum og áratugum á Íslandi. Við því þarf að bregðast og krefst virkrar íhlutunar stjórnvalda. Fram hjá því verður ekki horft að ófullnægjandi fjármögnun og mönnun, auk vaxandi álags, bitnar á þekkingar- og nýsköpunarmöguleikum. Rannsóknatækifæri og vísindastarf eru talin mikilvægur þáttur í framhaldsnámi sem þarf að standast alþjóðlegan samanburð eins og sérnámi lækna. Að meta nýjungar og rannsóknir er lúta að meðferð og greiningu er hluti af grunnfærni sem krafist er af læknum. Með uppbyggingu sérnáms lækna búum við til sterkt þjónustu- og þekkingarsamfélag háskóla- og heilbrigðiskerfisins og stuðlum að sjálfbærni og tryggjum mannauð til framtíðar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. nóv. 2021 og má lesa hana HÉR
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga