Við áramót

Árið 2024 var í senn annasamt og gefandi og ekki annað hægt en að líta þakklát um öxl þegar farið er yfir atburði ársins.

Á vettvangi Læknafélags Íslands (LÍ) settu kjaraviðræður svip sinn á árið, enda lá fyrir að samið yrði til fjögurra ára og læknar ekki tilbúnir að sætta sig við svo langa samninga án þess að tekið yrði á þeim atriðum sem lengi hafa brunnið á stéttinni. Í kjölfar ítarlegrar vinnu félagsins við að kortleggja áherslumál lækna, bæði með fundahöldum og kjarakönnunum, kom skýrt fram að læknar vildu betri vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar, hærri grunnlaun og betri kjör á gæsluvöktum. Þessi atriði vógu þyngst við ítrekaða skoðun, en samninganefnd Læknafélagsins var þó nestuð með fjölmörgum fleiri kröfum sem allar voru teknar upp í viðræðum við ríkið. Veturinn 2023-2024 átti að nýta til að ýta áfram atriðum sem ekki náðust í síðustu samningum en hvorki gekk né rak í þeirri vinnu gagnvart ríkinu.

Samninganefnd LÍ sá sér því þann kost vænstan að vísa deilunni til ríkissáttasemjara um leið og fyrri samningur rann út, þ.e. í mars 2024. Frá þeim tíma, og sérstaklega frá júnímánuði 2024, fór fram yfirgripsmikið samtal og mjög viðamikil vinna við undirbúning nýs kjarasamnings undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Í lok sumars og upphafi hausts 2024 var samninganefnd LÍ þó farið að lengja verulega eftir raunverulegum samningsvilja af hálfu ríkisins þrátt fyrir að virkt samtal væri enn í gangi. Andrúmsloftið í samfélaginu var krefjandi og ríkið lagði þunga áherslu á að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. Ekki kæmi til greina að semja við lækna um nokkuð sem væri umfram „merki markaðarins“, þ.e. sömu hækkanir og aðrir sem þegar höfðu samið höfðu fengið.

Þetta lagðist eðlilega illa í aðila okkar megin borðsins, enda læknar búnir að leggja fram mjög gild og afgerandi rök fyrir því að stéttin hafi setið eftir í launaþróun og ekki notið þess ávinnings sem stytting vinnuvikunnar hefur í för með sér. Auk þess byggju stórir hópar lækna við óverjandi kjör á gæsluvöktum þar sem greiðslur og frítaka væru í engu samræmi við álag og bindingu. Vaxandi óánægju gætti meðal lækna vegna hægs gangs viðræðna og var mál manna að ríkið áttaði sig ekki á alvarleika málsins. Mikilvægt væri að gera samninga sem myndu ýta undir nýliðun og sporna við þeim vítahring manneklu sem nú ríkir víða í læknisþjónustu við landsmenn. Í lok október 2024 var haldinn mjög fjölmennur félagsfundur sem krafðist þess að boðað yrði til verkfallsaðgerða umsvifalaust til að knýja á um samninga og voru aðgerðir í kjölfarið samþykktar af yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna.

Ríkið gerði athugasemd við boðun verkfalls og taldi ekki löglega að henni staðið, þótt um nákvæmlega sömu framkvæmd hafi verið að ræða og í verkfalli lækna fyrir 10 árum. Þetta útspil ríkisins barst félaginu til eyrna á meðan á aðalfundi þess stóð þann 1. nóvember og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra átti samtal við félagsmenn í sal félagsins. Virtist ráðherra ekki hafa vitað af þessum vendingum og varð vitni að mikilli vanþóknun aðalfundarfulltrúa, sem fram að því höfðu flestir keppst við að hrósa ráðherra fyrir vel unnin störf. Í kjölfarið afréð félagið að boða samstundis til nýrrar atkvæðagreiðslu um aðgerðir, nú í samræmi við athugasemdir ríkisins, en það þýddi mun þyngri og umsvifameiri verkföll en félagið hafði áður lagt upp með. Ekki varð vart við annað en að þessi atburðarás hefði hleypt auknum baráttuanda í stéttina, sem varla var ætlun ríkisins.

Eftir að seinni verkfallsboðunin hafði verið samþykkt óx mjög þunginn í viðræðunum og stóðu þær sleitulaust allan nóvembermánuð. Unnið var í kappi við tímann, bæði hvað varðaði yfirvofandi verkföll en einnig vóg þungt að alþingiskosningar stóðu fyrir dyrum með tilheyrandi óvissu um framhaldið. Verkfalli sem hefjast átti á miðnætti 25. nóvember var á elleftu stundu frestað um viku þar sem samningar voru á lokametrunum. Var það mat manna að ef verkfall skylli á við þær aðstæður sem ríktu þá myndi það hafa letjandi áhrif á samningsvinnuna, ekki öfugt. Samningar voru að lokum undirritaðir skömmu eftir miðnætti fimmtudaginn 28. nóvember og fela þeir í sér mjög viðamiklar breytingar á kjaraumhverfi lækna.

Allar helstu kröfur félagsins náðust, þ.e. vinnuvikan verður stytt í 36 klukkustundir til samræmis við aðrar heilbrigðisstéttir og læknar munu varpast í nýja og breytta launatöflu þar sem ýmsum launamyndandi þáttum hefur verið bætt inn í grunnlaunin til hækkunar. Framvegis verður greitt fyrir símtöl á gæsluvöktum og símtöl að nóttu til teljast rof á hvíld. Einnig var komið á laggirnar nýrri tegund vaktar, viðbragðsvakt, sem ætlað er að koma í stað gæsluvaktar hjá læknum sem eru ekki staðsettir á sjúkrastofnun en þurfa þrátt fyrir það að sinna bráðaviðbragði án tafar.

Ýmislegt fleira náðist, t.d. að hægt verður að nota símenntunardaga í námskeið og ráðstefnur innanlands og með fjarfundabúnaði. Orðalagi í samningi var breytt til að taka af allan vafa um að ekki sé hægt að skipuleggja yfirvinnu og vaktir lækna umfram lögbundinn hámarks vikulegan vinnutíma, sem verða 43,2 klukkustundir á viku eftir að stytting vinnuvikunnar tekur gildi. Mjög mikilvægt er að læknar gæti þess að ekki sé rangt farið með þetta og taki ekki að sér vinnu umfram þessi mörk nema um það sé samið sérstaklega og á hátt sem viðkomandi læknir er sáttur við. Eins er mikilvægt að læknar hætti alfarið að vinna ólaunaða yfirvinnu, en til að innleiðing betri vinnutíma sé raunhæf þarf stéttin að láta af allri meðvirkni.

Loks má nefna að Willum Þór Þórsson þáverandi heilbrigðisráðherra undirritaði þrjár yfirlýsingar sem fylgja með kjarasamningnum. Sú fyrsta snýr að því að ríkið muni greiða kostnað sérnámslækna við ferðalög og próftöku tengda sérnáminu, önnur að því að fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og LÍ muni fara í sameiginlega ferð til að kynna nýja kjarasamninginn á helstu sérnámsstöðum lækna erlendis og sú þriðja snýr að skipun stýrihóps á landsvísu til að tryggja farsæla innleiðingu betri vinnutíma lækna.

Að undirritun kjarasamnings lokinni stóðu LÍ og aðildarfélög þess fyrir kynningarfundum fyrir félagsmenn. Eins er farið ítarlega í ýmis atriði samningsins, spurningar og svör, á innri vef LÍ. Lokahnykkur þessarar löngu lotu var kosning félagsmanna um samninginn. Þegar henni lauk föstudaginn 13. desember lá fyrir að 86,4% þeirra 81,6% sem þátt tóku samþykktu samninginn. Var sú niðurstaða sérlega ánægjuleg og er það mín von að nýr samningur muni reynast sú bót á starfsumhverfi lækna sem kallað hefur verið eftir.

Fyrstu mánuðir nýs árs verða sérlega annasamir hvað varðar undirbúning að innleiðingu betri vinnutíma lækna sem taka mun gildi 1. apríl n.k. Í samningaviðræðunum var sameiginlegur skilningur aðila að horfa þurfi yfir verkefni lækna í dag með það fyrir augum að draga úr sóun á tíma lækna svo raunhæft sé að stytta vinnuvikuna. Eins var öllum ljóst að ekki yrði ráðist í slíka vegferð nema í fullri samvinnu við lækna á hverri stofnun fyrir sig. Því miður hefur margoft brunnið við að tillögur um flutning verkefna frá læknum til annarra heilbrigðisstétta verða til í stjórnsýslunni án nokkurs samtals við lækna. Nýjasta dæmið um þetta er hvítbók um lyfjafræðilega þjónustu í apótekum sem gefin var út á vegum heilbrigðisráðuneytisins nú í desember. Í þessari skýrslu er m.a. lagt til að lyfjafræðingar geti ávísað lyfjum og endurnýjað lyf í vissum tilvikum og í umfjöllun um hana er talað um apótek sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu. Enginn læknir kom að vinnu við hvítbókina, þótt umræddar lyfjaávísanir og -endurnýjanir séu hluti af verkefnum lækna í dag. Þetta skýtur verulega skökku við og er því miður ekki eina dæmið um tillögur sem sagðar eru eiga að létta álagi af læknum en eru unnar án nokkurs samráðs við stéttina. Lyfjaávísanir, ásamt öðrum læknisverkum, hafa ekki verið meðal þess sem læknar hafa sjálfir óskað eftir að aðrir taki að sér, enda eru sjálf læknisverkin ekki vandamál í starfsumhverfi lækna. Markmiðið getur varla verið að útvista læknisþjónustu, sem sannarlega krefst læknismenntunar, á aðrar heilbrigðisstéttir, á meðan læknar sitja áfram fastir í vottorðafrumskóginum og tilvísanafeninu í stöðugum slag við kerfið um úrræði fyrir sína sjúklinga.

Ef betri vinnutími lækna á að vera raunhæfur og stjórnkerfinu er alvara með því að draga úr sóun á tíma lækna er mun nærtækara að tjasla saman kerfinu sem við vinnum í en að taka af okkur læknisverk. Það að flytja læknisverk yfir á aðrar heilbrigðisstéttir á ávallt að vera algjört neyðarúrræði og hefur ekki reynst spara tíma né auka gæði í þeim löndum þar sem það hefur verið gert. Frekar ætti að horfa á þætti eins og rafrænt starfsumhverfi, sem mætti stórbæta og spara þannig ómældan tíma, eins og reyndar ætti að liggja í augum uppi í miðri tæknibyltingu gervigreindarinnar. Sú bylting hefur nær algjörlega sneitt hjá heilbrigðiskerfinu enn sem komið er, en árið 2024 náðist ekki enn sá merki áfangi að samtengja þær lífsnauðsynlegu upplýsingar sem finna má í „snjókorni“ Sögukerfisins svo þær séu aðgengilegar á hverri þeirri stofnun þar sem fólk kann að leita sér þjónustu. Það er því verulega langt í land í þessum efnum og gríðarlega mikilvægt að spýta í lófana.

Eins hefur gengið hægt að vinna á vottorða- og tilvísanafarganinu þrátt fyrir mjög skýrar og uppbyggilegar ábendingar frá læknum um hvað þar mætti betur fara. Það er með ólíkindum að læknar þurfi að fara í vottorðaverkfall til að knýja á um að stjórnvöld nýti tíma þeirra á skynsamlegri hátt, eins og gerðist á árinu. Á aðalfundi LÍ í nóvember sagði Sigurveig Pétursdóttir bæklunarlæknir ótrúlega sögu af slag sínum við kerfið þar sem hún reyndi að útvega sjúklingum sínum viðeigandi hjálpartæki. Frásögn þessari mætti lýsa sem sirkus fáránleikans og ætti hún vel heima í skáldsögu eftir Kafka. Símtölin voru óteljandi, tölvupóstarnir líka, ekki fengust nein svör nokkurs staðar og mánuðirnir liðu með tilheyrandi óþægindum fyrir sjúklingana og álagi á lækninn.

Svo virðist sem allt of oft sé enginn hinum megin á línunni, enginn taki boltann og læknar sitji þannig uppi með alls konar félagsleg úrlausnarefni sem ekki eiga neitt skylt við lækningar. Sama gerist gjarnan á sjúkrahúsum landsins sem glíma við viðvarandi útskriftarvanda og nota tíma lækna óspart í að reyna að sparka fólki út, glíma við mótbárur ættingja og reyna að skálda upp eitthvað stuðningsnet í heimahúsi sem vonandi heldur. Hér mætti sannarlega fá inn fleiri fagstéttir til að taka boltana eða jafnvel gera það sem best færi á, að ráðast til atlögu við grunnvandann og draga úr úrræðaleysinu sem veldur þessu mikla álagi.

bindur miklar vonir við samtalið við stjórnvöld um þessi atriði á nýju ári, enda setja nýundirritaðir kjarasamningar mikinn þrýsting á að vel verði farið með tíma lækna og að þeirra sérþekking fái notið sín. Landspítalinn hefur þegar stigið stór skref í þessari vegferð með verkefninu um starfsáætlanir lækna, sem unnið er í samvinnu við LÍ og Félag sjúkrahúslækna. Það verkefni mun tvímælalaust fá byr undir báða vængi í tengslum við betri vinnutíma lækna og ætti að geta nýst sem fyrirmynd fyrir heilbrigðisstofnanir um land allt.

 

Það mætti ætla að kjaramál hefðu verið allsráðandi á árinu, en svo var ekki. Verkefni LÍ voru fjölbreytt sem endranær og má þar telja ýmislegt til. Félagið hélt áfram að veita stjórnvöldum virkt aðhald við stefnumótun í heilbrigðismálum, sendi inn umsagnir í samráðsgátt auk þess að funda með hagaðilum, m.a. í heilbrigðisráðuneytinu, á Alþingi og hjá embætti landlæknis. Þrír fræðslufundir fyrir almenning voru haldnir s.l. vor í sal félagsins í Hlíðasmára undir heitinu Læknisráð, en fundirnir voru einnig í streymi og eru aðgengilegir á ytri vef félagsins. Var þetta liður í að styrkja faglegt starf LÍ og miðla þekkingu lækna út í samfélagið. Fundarefnin voru ópíóíðafaraldurinn, sóun í heilbrigðiskerfinu og skimanir og sá Sirrý Arnardóttir fjölmiðlakona um fundarstjórn. LÍ þakkar henni og öllum þeim læknum sem deildu þekkingu sinni og reynslu á þessum vettvangi kærlega fyrir þeirra framlag. Hlé var gert að fundaröðinni í haust vegna anna á sviði kjaramála, en mögulega verður henni fram haldið á nýju ári með einum eða öðrum hætti.

Almennt fór mikið fyrir umræðu um dánaraðstoð á árinu og hélt Siðfræðiráð LÍ málþing um efnið, auk þess sem ég tók þátt í málþingi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um sama málefni. Stjórn LÍ skrifaði greinar um dánaraðstoð og tjáði sig í fjölmiðlum. Helsta niðurstaða þessarar umræðu hingað til hefur verið sú að dánaraðstoð hafi ekki verið nægilega vel kynnt eða rædd í íslensku samfélagi til að almenningur sé með skýra mynd af áhrifum þess að leyfa hana. Sambærilegar ályktanir hafa verið dregnar á hinum Norðurlöndunum, m.a. byggt á könnunum á þekkingu almennings á dánaraðstoð.

Lýðheilsuráðið lét einnig til sín taka í forvarnarmálum á árinu og hélt málþing þar sem ýmis lýðheilsumál voru rædd. Ráðið ályktaði ásamt stjórn LÍ gegn auknu aðgengi að áfengi í sumar, auk þess að álykta á aðalafundi um aðgerðir til að minnka skaðleg áhrif áfengisneyslu í íslensku samfélagi og að allar nikótínvörur, önnur en lyf, falli undir tóbaksvarnarlög.

Læknadagar voru á sínum stað og voru einstaklega ánægjulegir og vel sóttir að vanda. Þar kenndi ýmissa grasa í dagskránni og var meðal hápunkta erindi Dr. Özlem Türeci prófessors við Helmholtz Institute for translational Oncology og Johannes Gutenberg University í Mainz og meðstofnanda BioNTech um þróun bóluefna gegn COVID-19.

Einnig var bryddað upp á þeirri nýlundu á árinu að fagna degi íslenskra lækna, á sama hátt og gert hefur verið fyrir ýmsar aðrar heilbrigðisstéttir. Stjórn LÍ valdi fæðingardag fyrsta landlæknis Íslands, Bjarna Pálssonar, en hann fæddist 17. maí 1719. Vonir standa til að þessi dagur verði í framtíðinni í hávegum hafður á vinnustöðum lækna um allt land og mun félagið standa fyrir dagskrá í tilefni af honum á komandi ári.

Síðast en ekki síst má geta þess að árið var viðburðaríkt á alþjóðlegum vettvangi. Alþjóðasamtök lækna stóðu fyrir viðamikilli endurskoðun á Helsinki yfirlýsingunni og var ný útgáfa samþykkt á aðalfundi samtakanna í Helsinki í október. Hægt er að nálgast nýju útgáfuna og ítarefni tengt henni á heimasíðu félagsins, wma.net, en vonir standa til að hún verði þýdd á íslensku á komandi ári. Alþjóðasamtök lækna sendu frá sér yfirlýsingu á árinu vegna skelfilegs ástands á Gaza þar sem þess var krafist að alþjóðalög og hlutleysi heilbrigðisstarfsfólks og -stofnana væru virt. Norrænu læknafélögin sendu einnig frá sér yfirlýsingu sama efnis þar sem þess var krafist að komið yrði á tafarlausu vopnahléi og drápum og limlestingum á almennum borgurum og heilbrigðisstarfsfólki yrði umsvifalaust hætt. Dr. Mads Gilbert, bráða- og svæfingalæknir frá Noregi, hélt erindi í sal félagsins í maí þar sem hann lýsti reynslu sinni af störfum á Gaza undanfarna áratugi. Erindið lét engan ósnortinn og hvatti hann lækna til að beita sér fyrir friði og mannréttindum á Gaza, sem og annars staðar í heiminum.

Ég vil að endingu þakka stjórn LÍ, starfsfólki félagsins, meðlimum í nefndum félagsins og ráðum, fulltrúum félagsins á alþjóðavettvangi og öllum þeim læknum sem lagt hafa sitt af mörkum í starfi félagsins á árinu kærlega fyrir þeirra ómetanlega framlag. Félagið hefur blómstrað á árinu þökk sé ykkur og mun á komandi ári halda ótrautt áfram að veita stjórnvöldum og heilbrigsstofnunum aðhald og beita sér fyrir betri heilbrigðisþjónustu við landsmenn.

Ég sendi læknum og ástvinum þeirra, sem og landsmönnum öllum, hugheilar nýárskveðjur og þakkir fyrir árið sem er að líða.

Steinunn Þórðardóttir

Formaður LÍ