Leiðrétting vegna rangfærslu þingmanns

Yfirlýsing frá Læknafélagi Íslands

Byrjunardagvinnulaun lækna eftir 6 ára nám  eru 470.000 kr.


Í aðsendri grein Helgu Völu Helgadóttur þingmanns í Morgunblaðinu í dag, 23. apríl 2018, er því haldið fram að dagvinnulaun lækna eftir 6 ára nám séu 950.000. Þetta er rangt og er harmað að þingmaðurinn skuli með þessum hætti og rangfærslum draga lækna inn í yfirstandandi launadeilur annarra heilbrigðisstétta. Hið rétta er að dagvinnulaun lækna eftir 6 ára nám eru skv. kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands (LÍ)  kr. 470.000 á mánuði, eins og sjá má í meðfylgjandi launatöflu kandidata og almennra lækna.  Að kandídatsári loknu fara læknar í launaflokk 200. Langflestir almennir læknar eru í launaflokki 200 og 201 þar sem dagvinnulaun eru á bilinu 514.959 til 585.471 eftir starfsaldri.

Þingmaðurinn ruglar því saman að skv. gagnabrunni fjármála- og efnahagsráðuneytisins eru meðaltal heildardagvinnulauna með álagsgreiðslum alls læknahópsins á Íslandi (alls 863 lækna) sem m.a. telur alla sérfræðilækna landsins sem lokið hafa 12 – 14 ára námi, yfirlækna og forstöðulækna 950.000 kr, en byrjunardagvinnulaun þeirra sem lokið hafa 6 ára námi eru aðeins 470.000 kr.

LÍ hefur fullan skilning á kröfum Ljósmæðrafélags Íslands um að menntun skuli metin til launa og styður ljósmæður í viðleitni þeirra til að fá sanngjarna leiðréttingu á kjörum sínum og vinnuaðstæðum. LÍ hefur áhyggjur af þeirri þróun sem samskipti og launaviðræður ríkisins við Ljósmæðrafélagið eru komin í og hvetur samningsaðila til að ná samkomulagi nú þegar.

 

Reykjavík 23. apríl 2018. 

Reynir Arngrímsson, formaður