Kraftaverk þegar drengjum var bjargað - Felix í fréttum RÚV

„Maður fær enn þá gæsahúð þegar maður sá að þeir vöknuðu. Það var bara ótrúleg stund,“ segir Felix Valsson, sérfræðilæknir í svæfingu og gjörgæslu á Landspítala, í viðtalið við Þórhildi Þorkelsdóttur fréttamann í fréttum sjónvarpsins. Felix tók á móti drengjunum tveimur sem urðu eftir í bílnum sem fór í Hafnarfjarðarhöfn föstudagskvöldið 17. janúar. Kafarar náðu þeim úr höfninni á um hálftíma. 

„Þeir voru ekki með neinn hjartslátt. Sjúkraflutningsmenn og læknar á spítalanum voru að skiptast á að hnoða þá og reyna að halda blóðrás til hjartans og heilans. Og þetta leit mjög illa út í raun og veru,“ segir Felix. Mál piltanna sé einstakt á alla mælikvarða. Þetta séu fyrstu tilfellin, þótt víðar sé leitað, þar sem drengir í hjartastoppi allan tímann fara beint í hjarta- og lungnavél. 

„Það er ekkert ofsögum sagt að segja að þetta sé hálfgert kraftaverk. Nei, ég hugsa að það sé alveg óhætt að kalla þetta kraftaverk. Það er ekkert minna.“

Hér má sjá fréttina á vef RÚV.