Fyrstu námslæknarnir á Landspítala luku kjarnanámi í lyflækningum

Fyrstu tveir námslæknarnir á Landspítala hafa lokið þriggja ára kjarnanámi í lyflækningum og öllum tilskyldum prófum. Þetta eru Bjarni Þorsteinsson og Ólafur Pálsson. Þeir fá nú inngöngu í samtök lyflækna í Bretlandi, Royal College of Physicians, og fá að bera nafnbótina MRCP. Forstjóri Landspítala fékk nýlega tækifæri til að óska þeim til hamingju með árangurinn.

Landspítali hefur, í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri, lagt mikla áherslu á að efla framhaldsnám lækna á Íslandi. Tilgangurinn er margþættur. Einn er að mikilvægt er að námslæknar sjái hag sinn í því að vera lengur við vinnu á Íslandi því það sárvantar þennan starfskraft. Í samanburði við aðrar þjóðir hafa sjúkrahúsin hér ekki haft reynda námslækna í starfi. Reyndir námslæknar eru lykilstoð í að veita alhliða og breiða þjónustu þvert á sérgreinar, vera meginstoð í teymisvinnu og við kennslu yngri lækna og annarra heilbrigðisstétta.  Það þykir því mikið öryggismál að hafa hæfa námslækna við störf. Annað er að sjúkrahúsin hér eigi að hafa fulla burði til að veita að minnsta kosti ákveðið kjarnanám sem sé samanburðarhæft við bestu staði erlendis. 

Sjá frétt á vef Landspítalans