Læknafélagið fundar hjá ríkissáttasemjara eftir páska

 

Læknafélag Íslands fundar hjá ríkissáttasemjara í næstu viku eftir að hafa vísað kjaradeilu sinni við ríkið þangað. Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir kjaraviðræðurnar aðallega snúa að starfsumhverfi lækna, styttingu vinnuvikunnar og greiðslur fyrir vaktir.

Læknastéttin sé eina heilbrigðisstéttin fyrir utan lyfjafræðinga sem hafi ekki fengið styttingu vinnuvikunnar í gegn.

„Ef maður horfir á þróunina síðustu ár eru langflestir að vinna minna, við horfum á algjörlega öfuga þróun hjá læknum og það er áhyggjuefni.“

Steinunn segir samninganefndir frekar vera að einblína á sérákvæði í kjarasamningsviðræðunum heldur en atriði sem samþykkt voru í kjarasamningum sem undirritaðir voru nýlega.

Fyrsti fundur félagsins með ríkinu verður hjá ríkissáttasemjara 4. apríl.

Frétt á ruv.is