Óviðunandi að starfsfólk vinni í myglu - Kristín í Mogganum

„Algjörlega óviðunandi er að veikasta fólkið í landinu, og allt það góða starfsfólk sem því sinnir, sé í húsnæði sem er ekki í lagi með,“ segir Kristín Sigurðardóttir læknir í forsíðuviðtali Sunnudags Morgunblaðsins nú um helgina og ræðir þar um Landspítala. 

Sagt er frá því að Kristín sé nú í hlutastarfi við heilsurannsókn hjá þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (ÞR) fyrir Íslenska erfðagreiningu en einnig að hún kenni læknanemum. Hún hafi orðið að hætta á Landspítala vegna áhrifa rakaskemmda á húsnæðinu á heilsufar hennar fyrir fimm árum. Hún hafði ráðið sig í 70% starf á endurhæfingardeild Landspítalans og hugðist taka vaktir á slysadeild á móti.

„Ég hef alltaf tjáð mig um það að byggja ætti nýjan spítala frá grunni á góðum stað frekar en að byggja við gömul og víða ónýt hús,“ segir hún. „Ég veit því miður um fólk af öllum stéttum sem hefur veikst,“ segir hún. 

Sláandi er að lesa um hvernig hennar teymi hafi átt að víxla um vinnusvæði við taugasálfræðinga því þeir væru orðnir svo veikir af myglu.

„Mér finnst þetta sorglegt ástand, en það var aldrei góðæri í heilbrigðisþjónustunni og það átti alltaf að vera að spara og svo kom hrunið og allt varð ennþá erfiðara. Peninga sem áttu að fara í viðhald þurfti að nota í rekstur.“ 

Hún segir frá því hvernig rakaskemmdir á spítalanum hafi ollið því að fyrstu tvö, þrjú árin eftir að hún hætti hafi enginn komið inn á heimilið. Hún hafi getað farið á fáa staði vegna áhrifa á heilsu hennar en hún hafi verið mjög hraust áður en hún hóf að vinna á spítalanum.

„Fyrst var ég mjög svekkt og sorgmædd að hafa misst þessa hreysti mína. En það breyttist og seinna varð ég þakklát fyrir að hafa í raun verið svona hraust áður, því það hefur hjálpað mér að þola veikindin betur. Ég horfi á það sem ég hef og er þakklát fyrir að vera með svona góða fjölskyldu og vini, hreyfigetu og að geta stundað útivist.“ 

Á myndinni sem fylgir er Kristín á aðalfundi Læknafélagsins sem haldinn var á Siglufirði í september síðastliðnum. Henni við hlið er Ragnar Jónsson bæklunarlæknir.

Ítarlegt viðtal er við Kristínu í Morgunblaðinu. Hér á mbl.is