Sagði ríkisstjórnina vega að einkarekinni heilbrigðisþjónustu

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir ríkisstjórnina sækja að hinum einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins og hefur áhyggjur af því að skilvirkni sé ekki nægileg í ríkisrekinni heilbrigðisþjónustu. Þetta sagði hann í umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á fimmtudag.

„Útgjöld eru ekki markmið í sjálfu sér. Útgjaldaaukning er ekki markmið í sjálfu sér, heldur hvað fáum við fyrir fjármagnið og hvernig er skilvirkni ríkisrekstrarins fyrir okkur, og þar hef ég töluverðar áhyggjur af skilvirkni heilbrigðiskerfisins,“ sagði Þorsteinn.

„Þar finnst mér t.d. í stefnu núverandi ríkisstjórnar vera sótt mjög að hinu einkarekna – og mikilvægt að gera þar skýran greinarmun á einkavæddu og einkareknu heilbrigðiskerfi – sem hefur sýnt sig vera mjög skilvirkt á köflum en vissulega á að gera mjög miklar kröfur þar líka. En þar sýnist mér að við séum einmitt að lenda í þessari gildru. Markmiðin séu stórkostleg útgjaldaaukning án þess að við sjáum svo glögglega hvað við fáum fyrir það fjármagn og um leið sé sótt mjög að einkarekna hluta kerfisins án þess að þar sé til grundvallar lagt neitt mat á hvort einhver fjárhagslegur ávinningur sé af því fyrir ríkissjóð, hvort með þessu sé verið að fá bætta þjónustu eða á hagkvæmara verði hjá hinu opinbera heilbrigðiskerfi heldur en hjá hinu einkarekna.“ 


sjá frétt á Stundin.is