Lög Tryggingalæknafélagsins

1. gr.    Tilgangur félagsins

Tilgangur félagsins er að stuðla að þróun innan tryggingalæknisfræðinnar. Félagið skal þannig stuðla að rannsóknum innan fagsins, fræðslu og auknum gæðum í starfsemi innan fagsins.
Félagið skal jafnframt vinna að því, í samvinnu við þar til bær stjórnvöld að skilgreindar verði hæfniskröfur varðandi störf innan tryggingalæknisfræðinnar. Jafnframt skal unnið að því að tryggingalæknisfræði verði skilgreind og viðurkennd hér á landi sem undirsérgrein innan læknisfræðinnar.

2. gr.    Stjórnun félagsins og aðsetur

Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins.
Á milli aðalfunda fer stjórn félagsins með æðsta vald þess.
Heimilisfang félagsins er að Hlíðasmára 8, 201 Kópavogi.

3. gr.    Aðild að félaginu

Allir læknar með ótakmarkað lækningaleyfi geta sótt um aðild að félaginu.
Umsókn um aðild skal senda stjórn félagsins.
Stjórn félagsins ákveður hvort hafna skuli eða samþykkja umsókn um aðild að félaginu. Hafni stjórnin umsókn um aðild skal bera ákvörðun stjórnar undir atkvæði á næsta aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að samþykkja ákvörðun stjórnar.
Félagsmaður sem vill segja sig úr félaginu tilkynni stjórn þess skriflega um það.
Félagsmaður sem ekki hefur greitt árgjald fyrir aðalfund næsta árs telst hafa sagt sig úr félaginu.
Hægt er að vísa félagsmanni úr félaginu ef hann vinnur félaginu skaða eða vinnur gegn markmiðum þess og tilgangi eða samkvæmt tillögu siðanefndar. Ákvörðun um slíka brottvísun úr félaginu skal tekin á aðalfundi eftir tillögu stjórnar. Brottvísun úr félaginu krefst 2/3 greiddra atkvæða.
Stjórn félagsins getur veitt félagsmanni áminningu komi upp mál sem um er fjallað hér í næstu mgr. að framan þyki brotið alvarlegt, en ekki svo alvarlegt að ástæða sé til brottvísunar úr félaginu.

4. gr.    Aðalfundur

Starfsár félagsins er almanaksár. Aðalfund skal halda árlega, í mars. Tillögur um lagabreytingar og önnur erindi, sem leggja skal fyrir aðalfund, skulu sendast stjórn félagsins fyrir 1. febrúar. Boða skal til aðalfundar með fjórtán daga fyrirvara og jafnframt senda með fundarboði nauðsynleg gögn vegna fundarins þar með taldar tillögur um lagabreytingar. Boða skal rafrænt til fundarins og jafnframt senda fundargögn rafrænt.
Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa allir félagar sem greitt hafa árgjald yfirstandandi árs.
Á aðalfundi skal taka fyrir eftirfarandi atriði:
•    Lögmæti fundarins.
•    Kjör fundarstjóra og fundarritara.
•    Skýrslu stjórnar.
•    Uppgjör reikninga félagsins.
•    Ákvörðun árgjalds.
•    Lagabreytingar.
•    Kjör stjórnar. Kjósa skal formann stjórnar sérstaklega.
•    Kjör skoðunarmanna reikninga.
•    Önnur mál.

5. gr.    Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum.
Stjórnin skiptir með sér verkum. Skal einn vera ritari og hann er jafnframt varamaður formanns. Einn skal vera gjaldkeri og tveir skulu vera meðstjórnendur. Formaður stjórnar er kosinn til tveggja ára og aðrir stjórnarmenn einnig þannig, að tveir þeirra eru kosnir á hverjum aðalfundi.
Stjórn félagsins er ályktunarhæf þegar minnst helmingur stjórnarmanna situr fund.
Stjórn félagsins skal starfa að þeim atriðum sem fyrir er um mælt í lögum félagsins og halda félögum upplýstum um starfsemina.
Stjórn félagsins skal halda félagsfund ef að minnsta kosti þriðjungur félagsmanna óskar þess.

6. gr.    Kosningar

Félagsmenn ráða yfir einu atkvæði hver. Atkvæðagreiðsla er opin ef ekki er farið fram á að hún sé leynileg. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Falli atkvæði jöfn í leynilegri atkvæðagreiðslu  ræður hlutkesti.

7. gr.    Lagabreytingar

Breyta  má lögum félagsins á aðalfundi. Atkvæðagreiðsla er opin ef ekki er farið fram á að hún sé leynileg. Lagabreytingatillögur á að senda út með aðalfundarboði. Til að breyta lögum þarf minnst 2/3 hluta atkvæða.

8. gr.    Fræðslustarf

Í samræmi við tilgang félagsins skal halda fræðslufundi fyrir félaga, helst ekki færri en einn á misseri. Stjórn félagsins ber ábyrgð á þeirri framkvæmd og getur séð um þá fundi sjálf eða falið einum eða fleirum félagsmönnum að halda slíka fundi.

9. gr.    Siðareglur

 

Ef stjórn berst ábending um brot félagsmanns á siðareglum félagsins eða ef stjórn verður slíks áskynja með öðrum hætti, þá skoðar stjórnin það mál eða felur einum eða fleirum félagsmönnum að skoða það. Við meðferð slíkra mála skal veita aðilum máls andmælarétt áður en niðurstöðu er náð. Slíkri athugun skal lokið með greinargerð til stjórnar og tillögum um viðbrögð félagsins.

Ef þurfa þykir er unnt að breyta siðareglum á aðalfundi og fara slíkar breytingar eftir sömu reglum og gilda um lagabreytingar í félaginu. Stjórn getur af sjálfsdáðum fjallað um tillögur til breytinga eða eftir atvikum falið einum eða fleiri félagsmönnum að undirbúa slíkar tillögur

 

10. gr.    Félagið lagt niður

Tillaga um að leggja félagið niður skal send til stjórnar, sem ákveður hvort tillagan verði lögð fyrir félagsfund eða næsta aðalfund. Slík tillaga þarf að berast stjórn minnst sex vikum fyrir aðalfund, ef tillagan skal lögð fyrir aðalfund. Eignir þess renna þá til félagsmanna.



Þannig samþykkt á aðalfundi 27. mars 2014.


Til baka