„Það þarf einfaldlega að endurskoða allt greiðsluþátttökukerfið heildrænt,” segir Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur og sérfræðingur í hjartalækningum, á Facbook-síðu sinni. Þórarinn vísar þar á grein Gunnars Alexanders Ólafssonar heilsuhagfræðings á vefmiðlinum Kjarnanum sem segir að alltof há mörk séu í greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Kerfið sé óþarflega flókið.
Þórarinn segir ábendingar Gunnars margar góðar og réttmætar. „Það má þó benda á enn fleiri vankanta á núverandi kerfi, t.d. að sjúklingar sem eru meira veikir og þurfa á þjónustu sérfræðilæknis á stofu að halda greiða að meðaltali 70% eða meira af kostnaðinum meðan kostnaðarhluti þeirra sem eru minna veikir og fá úrlausn á heilsugæslunni er vel undir 10%.“
Þórarinn segir að þannig sé sjúklingum mismunað svo að þeir veikari borgi mikið meira. Það eigi líka við börn, öryrkja og ellilífeyrisþega.
Gunnar segir í grein sinni að lækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga í nýju fjárlagafrumvarpi með því að bæta 800 m.kr. við fjárlagaliðinn sé ánægjuleg en gangi of skammt. „[H]ámarksþak fyrir almenna heilbrigðisþjónustu og lyf eru 137 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili. Það er alltof há fjárhæð fyrir þá sem hafa úr litlu að spila.“
Gunnar segir að við búum við of mörg mismunandi greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. „Eitt kerfi fyrir almenna heilbrigðisþjónustu, annað kerfi fyrir lyf, þriðja kerfi fyrir sálfræðiþjónustu (reyndar á að setja kostnað við sálfræðiþjónustu inní almenna greiðsluþátttökukerfið), fjórða kerfið fyrir tannlækningar, fimmta kerfið fyrir tannréttingar, sjötta kerfið er tilvísunakerfi fyrir börn og til viðbótar eru fleiri kerfi fyrir aðra þætti heilbrigðisþjónustu (eins og tæknifrjóvganir og lýtalækningar). Nauðsynlegt er að að ráðast í almenna uppstokkun á þessum kerfum og fækka þeim og samræma á þann hátt, að þau verði gegnsærri og skilvirkari líkt og annars staðar á Norðurlöndum.“
Mynd/Læknablaðið
Lesa má greina hans Gunnars hér.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga