Ábyrgð á öllum verkþáttum sem varða uppbyggingu nýs Landspítala verður á einni hendi samkvæmt drögum að nýju skipulagi sem heilbrigðisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa þróað. Markmiðið er að ná betri heildaryfirsýn yfir alla þætti verkefnisins þar sem í senn er horft til heildarskipulags, nýbygginga, nýtingar og aðlögunar eldri bygginga og rekstrar sjúkrahúss. Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi ríkisstjórnar sl. föstudag.
Uppbygging húsnæðis Landspítalans við Hringbraut er stærsta beina fjárfestingarverkefni ríkisins frá upphafi. Lykilforsenda uppbyggingarinnar er sú að flutningur allrar meginstarfsemi Landspítala í nútímalega innviði á einn stað, feli í sér mikil tækifæri til að auka gæði, hagkvæmni og árangur þjónustunnar, ásamt því að bæta aðstæður starfsfólks. Mikilvægt er að stjórnun þessa umbreytingaverkefnis sé bæði heildstæð og markviss.
04.06.2019