Hótun heilbrigðisráðherra
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði nýlega á fundi læknaráðs Landspítalans að það væri mikil áskorun fyrir hana að standa með spítalanum þegar ályktanir um slæma stöðu stofnunarinnar kæmu út á færibandi.
Þetta er fordæmalaust tal ráðherra til starfsmanna opinberrar stofnunar. Það sem ráðherra er að segja er skýrt: Tali starfsmenn Landspítala um ástand mála innan veggja hans er ekki sjálfgefið að hún hafi áhuga á að vinna að lausnum á vanda stofnunarinnar.
Allir skilja hvað þetta þýðir í raun og veru. Álykti starfsfólk eða segi frá á annan veg en ráðherra þóknast kemur það niður á fjárveitingum til spítalans. Grímulausari getur hótunin vart verið.
16.01.2020