Mikilvægi ljósmæðra í þjónustu við nýfædd börn
Ljósmóðurstarfið er fjölbreytt. Auk þess að sinna konum á meðgöngu, í fæðingu og eftir barnsburð er stór hluti af starfsskyldum ljósmæðra eftirlit og umönnun hins nýfædda barns. Má þar nefna aðstoð við brjóstagjöf og umönnun barna sem eru létt við fæðingu. Fylgjast þarf með blóðsykri hjá börnum mæðra með sykursýki á meðgöngunni og sjá til þess að þau nærist vel. Mæla þarf reglulega lífsmörk hjá börnum sem eru í hættu á að fá sýkingu, til dæmis ef móðirin var með hita í fæðingunni eða er með streptókokka í fæðingarvegi. Einnig má nefna að nýlega var farið að skima alla nýbura fyrir alvarlegum hjartasjúkdómum með mælingu á súrefnismettun, nokkuð sem er í höndum ljósmæðra. Eftir útskrift sinna ljósmæður móður og barni næstu daga í heimahúsi. Augljóst er hversu mikilvægt starf þeirra er fyrir velferð nýburans og eiga ljósmæður tvímælalaust stóran þátt í þeim góða árangri sem við getum státað okkur af og kristallast í hinum lága ungbarnadauða hér á landi.
12.07.2018