"Kaldhæðni örlaganna ef arfleifð núverandi heilbrigðisráðherra yrði tvöfalt kostnaðarkerfi sjúklinga"
Ólafur Ó. Guðmundsson, barna- og unglingageðlæknir og stjórnarmaður í Læknafélagi Íslands, telur að stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum kunni að leiða til myndunar tvöfalds kostnaðarkerfis sjúklinga þar sem einungis hinir efnameiri hafi ráð á því að leita til sérfræðilækna.
„Afleiðing pólitísks ásetnings ráðuneytisins getur orðið sú að læknisþjónusta verði annars vegar ríkisrekin með óhjákvæmilegum biðlistum og hins vegar einkarekin fyrir þá sem efni á henni hafa,“ skrifar Ólafur í pistli sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. „Það yrði kaldhæðni örlaganna ef arfleið núverandi heilbrigðisráðherra yrði tvöfalt kostnaðarkerfi sjúklinga en sú hætta er raunverulega fyrir hendi fari fram sem horfir.“
12.07.2018