Mikið hefur áunnist í jafnréttismálum læknastéttarinnar. Í dag eru 40% lækna konur og í útskriftarárgöngum lækna eru nú tveir af hverjum þremur kandídötum konur. Um 80% lækna í framhaldsnámi í heimilislækningum eru konur. Konur í læknastétt eru greinilega góðar fyrirmyndir ungra kvenna þegar kemur að vali á háskólanámi og starfsvettvangi. Þannig má segja að læknastéttin á Íslandi sé því í fararbroddi við að brjóta niður staðalímyndir og stuðla að jöfnum tækifærum karla og kvenna. Mættu aðrir taka það sér til fyrirmyndar, en talsvert ber enn á þeim ranghugmyndum að í læknastétt veljist eingöngu karlar.
Að Læknafélagi Íslands eiga fjögur félög aðild. Félag sjúkrahúslækna sem stofnað var í upphafi þessa árs og í eru læknar sem vinna aðallega á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum, Félag íslenskra heimilislækna sem í eru aðallega læknar sem starfa á heilsugæslustöðvum og við heimilislækningar, Læknafélag Reykjavíkur (LR) sem í eru læknar sem starfa sjálfstætt að hluta til eða öllu leyti og Félag almennra lækna sem í eru 340 læknar sem fengið hafa lækningaleyfi. Þeir starfa sem almennir læknar í íslenska heilbrigðiskerfinu, á sjúkrahúsum og heilsugæslunni. Þar eru konur meirihluti starfandi lækna.
06.09.2018